Hofsjökull (1765 m) er 925 km² hveljökull á
miðhálendinu miðju, kenndur við Hof í
Vesturdal í Skagafirði. Fyrrum var hann nefndur eftir
Arnarfelli hinu mikla og hét Arnarfellsjökull. Hann
er þriðji stærsti jökull landsins. Samkvæmt
mælingum, sem Helgi Björnsson gerði á jöklinum,
hvílir hann á stóru eldfjalli með geysistórri
og djúpri, ísfylltri öskju. Hofsjökull
er tiltölulega brattur og þar af leiðandi verða
ferðamenn að gæta sín vel á sprungum.
Meðal hinna mörgu og misstóru skriðjökla,
sem ganga niður frá jökulhvelinu eru Múlajökull,
Þjórsárjökull, Klakksjökull, Nauthagajökull,
Blautukvíslarjökull, Blágnípujökull,
Sátujökull og fleiri, sem eru nafnlausir. Mikið
vatn kemur fá Hofsjökli á yfirborði, s.s.
Blanda, Jökulsár eystri og vestari, Jökulfall
og Þjórsá. Blönduvirkjun, Sultartangavirkjun
og Búrfellsvirkjun eru byggðar að öllu leyti
og að hluta á vatnsbirgðunum, sem eru bundnar í
ísmassa jökulsins. Hofsjökull á sér
lítinn nafna austan Vatnajökuls við jaðar
Lónsöræfa.
|