Teng
efni:
Reykjafjörður
Ferðast
á Vestfirði
Seinagengið
Heimildir
|
Drangajökulsleiðangur
2001
Ísland hefur æ meira aðdráttarafl
fyrir ferðalanga, íslenska sem erlenda. Mikil þekking
er til á landinu á því hvernig skal
endurbyggja jeppa fyrir hálendisferðir en fjöllin
freista og ekki síður jöklarnir. Sigurpáll
Ingibergsson ákvað að eyða páskunum
í ferðalag á Drangajökul og lagði í'ann
með nokkrum galvöskum jeppamönnum úr Seingagenginu
Léttir.
Ég fékk að fljóta með hjá
Halldóri Guðmundssyni bifvélavirkja, eða
Dóra Meik, einsog félagarnir kalla hann, en hann
er býsna seigur að gera við á fjöllum
þegar lítið er til af varahlutum. Hinir jeppaeigendurnir
voru Gísli Örn Arnarson kallaður Göslarinn,
sem tók fjölskylduna með, Gunnar Sigurfinnsson,
kallaður Stimpillinn, Sigþór Þorleifsson
frá Veiðileysu og Hjörtur Óskarsson torfærukappi,
alls 16 manns á öllum aldri.
Brottför var ákveðin kl. 19 á skírdag
en Sigþór óðalsbóndi hafði
farið af stað um morguninn. Að sjálfsögðu
stóð restin af Seinagengisfélögunum undir
nafni og lögðum við fyrstir af stað kl. hálfátta
en hinir tíndust af stað í rólegheitum
til klukkan að ganga níu. Keyra átti í
einum rykk að Hólmavík (272 km) og tanka þar.
Síðan eru um 60 km að Veiðileysu. Ferðin
gekk vel á 38" dekkjunum og 12" breiðum felgunum
út Hrútarfjörðinn en hann heitir eftir
tveim hrútum sem Ingimundur gamli Þorsteinson fann
í landaleit. Eyðslan hjá okkur var tæpir
19 lítrar á hundraðið. Rétt áður
en komið er að Hólmavík þarf að
fara upp Ennishöfða og er Kollafjörður þar
fyrir handan. Er við vorum að rýna í kort
sáum við gufu leggja úr vélarrúmi
okkar og hentumst út. Kom í ljós að neðri
vatnskassahosa hafði gefið sig. Þetta þýddi
viðgerð.
Dóri Meik ók að næsta bæ, Broddadalsá,
og knúðum við þar dyra. Bóndinn hafði
farið að leita tófu en var rétt ókominn.
Dóri náði hosunni undan bílnum en engin
var til í nágrenninu, nú þurfti að
meika! Dóri ákvað að saga út skemmda
svæðið og fékk járnhólk, gamalt
púströr, hjá Torfa Halldórssyni bónda
og setti í sárið. Síðan var gerð
dauðaleit að hosuklemmum á býlinu en aðeins
ein fannst. Restin af Seinagenginu var nú búin að
ná okkur og í einum jeppanum fannst hosuklemma og
málunum varð því reddað í það
sinnið. Um kl. tvö um nóttina voru hjónin
á Broddadalsá, Torfi og frú, kvödd og
haldið áfram.
Þegar komið var í Hólmavík ætluðum
við að nota bensínsjálfsala þar, en
hann hafnaði öllum kortum og enginn með seðla
enda nútímamenn á ferð, nú voru
því góð ráð dýr. Hvaða
kraftaverk haldið þið að þá hafi
gerst? Jú, einn starfsmaður Esso-stöðvarinnar
var á ferli þarna og hann opnaði og afgreiddi
okkur. Stórkostleg þjónusta! Þeir hafa
góða þjónustulund Strandamenn. Færðin
að Veiðileysu var þung og við komum þangað
um kl. 4 og fengum góðar móttökur. Á
leiðinni sáum við mikið af tófusporum
í snjónum og undir Balafjöllum sáum
við tófu flýja undan okkur.
Skrifandi um Ennishöfða, hafið þið velt
því fyrir ykkur hvað mikið af örnefnum
Íslands tengist mannslíkamanum, enni, kjálki
(Vestfjarðakjálki), bak, barmur, bringa / bringur,
fuð, geirvörtur, haus, háls, hryggur, höfuð,
hné, hvirfill, hæll, kinn, nef, rif, tá, tunga,
vangi, þumall, öxl? Síðan hef ég
fundið nokkur í viðbót, sum má deila
um; Kollseyra, Tannstaðir, Skeggöxl,
Augastaðir, Síða, Kriki, Kálfatindar,
Skarð, Leggjabrjótur, Kroppur
og Brúnir.
Veiðileysa
Byggð á norðanverðum Vestfjörðum
hefur átt í vök að verjast síðustu
áratugi. Veiðileysa fór í eyði 1961,
um svipað leyti og vegur kom í fjörðinn. Þegar
byggðin stóð í sem mestum blóma í
Árneshreppi á Ströndum voru tvö þorp
þar, Djúpavík og Gjögur. Á árum
seinni heimsstyrjaldar bjuggu þarna á sjötta
hundrað manns, en nú eru skráðir þar
innan við 70.
Veiðileysufjörður er þröngur og stuttur
fjörður sem skerst upp í landið milli Byrgisvíkurfjalls
og Kambs. Fjörðurinn er nokkuð djúpur en grynningar
eru fyrir fjarðarmynninu. Undirlendi er lítið og
mest í fjarðarbotninum en þar eru Veiðileysubæirnir.
Kambur (530 m) er sérkennilegt fjall og setur mikinn svip
á fjörðinn, fjallseggin er þunn og þverhnípt
með ótal dröngum og hamrasúlum sem minna
á tröllagreiðu.
Gerður hefur verið ágætis vefur um Veiðileysuættina,
frá Guðbrandi Guðbrandssyni eldri, hreppstjóra,
og konu hans, Kristínu Magnúsdóttur. Fyrri
bærinn var byggður af einum syni Guðbrandar eldri,
Þorláki, og hinn bærinn var byggður af
tveimur sonum Guðbrandar yngri, og það eru afkomendur
þessara tveggja bræðra sem hafa gert húsin
upp og haldið þeim vel við. Öll nútíma
þægindi eru þarna og dísilvél
sér fyrir hita og rafmagni.
Landbúnaður á Íslandi hefur átt
undir högg að sækja og eflaust eiga fleiri býli
eftir að verða nýtt sem sumarhús í
framtíðinni.
Munnmæli segja að nafnið Veiðileysa
sé þannig til komið að kerling nokkur að
nafni Kráka hafi misst tvo sonu sína í fiskiróðri.
Mælti hún þá svo um í harmi sínum
að þar skyldi aldrei framar veiðast bein úr
sjó. Þótti það þá sannast.
Að því búnu hljóp Kráka
upp með á þar við fjarðarbotninn og steypti
sér í foss sem þar er og heitir Krákufoss.
Reykjarfjörður, Trékyllisvík og Norðurfjörður
Veður var ekki hagstætt fyrir hálendisferð
á föstudaginn langa, hæglætisveður
en skýjað. Því var tilvalið að
kíkja á næstu staði fyrir norðan okkur,
Reykjarfjörð, Trékyllisvík og Norðurfjörð.
Reykjarfjörður
er mesti fjörður á norðanverðum Ströndum,
milli Trékyllisvíkur og Veiðileysu. Hann er
röskir 13 km á lengd og 3 km á breidd. Í
mynni hans er Gjögur en þar hefur útgerð
verið í aldir, fræg fyrir hákarlaveiðar.
Inni í firðinum er Djúpavík og Kúvíkur
sem voru um aldir aðalverslunarstaður Strandamanna. Undirlendi
er mest í botni fjarðarins og þar eru m.a. Breiðidalur
og Mjóidalur. Nafnamiðlarar hafa haft húmor
þegar þeir voru að gefa nöfn eða kannski
sýnir þetta best andstæðurnar í
landslaginu. Annað sem tengist nafnavali í Strandasýslu
er hversu mörg nöfn eru einnig til á öðrum
stöðum t.d. Grímsey, Kaldbakur, Reykjanes, Búrfell
(1/18), Árnes, Veiðileysa o.s.frv. Síðan
koma einstök nöfn einsog Glissa, Sætrafjall og
Trékyllisvík en örnefni eru myndræn og
mikilfengleg.
Á Djúpuvík var fyrst atvinnustarfsemi árið
1917 en þá var reist síldarsöltunarstöð.
Árið 1920 varð "Krakkið" en þá
varð verðhrun á afurðum og lagðist starfsemi
niður. Árið 1934 var aftur hafin starfsemi og fyrirtækið
Djúpavík hf. hóf að reisa fullkomnustu
síldarbræðslu Evrópu. Brætt og saltað
var til 1952 en þá var starfsemi lögð niður
eftir að síldin hvarf úr Húnaflóa.
Það var magnað að koma í þetta
mannlausa þorp og kíkja 50 ár aftur í
tímann. Tóm síldarbræðsla, gamall
Evrópumeistari og íbúðarhús tóku
á móti manni. Þó var fólk nýkomið
í Hótel Djúpuvík en þar er rekstur
yfir sumarið. Það var skrítið að
koma inn í bræðsluna, lágt til lofts og
gömul ryðguð tæki sáust. Bræðslan
ætti að fá að standa um ókomna framtíð
sem minnisvarði um merkilegt tímabil í Íslandssögunni.
Verður þetta framtíðin sem bíður
nokkurra þorpa á Íslandi í kjölfar
alþjóðavæðingar og kvótasetninga?
Munu þorpin verða auð yfir veturinn og húsin
sem eftir standa notuð sem sumarhús fyrir eigendur
og afkomendur þeirra?
Næst var komið við á fyrrum hákarlaslóðum,
Gjögri. Þegar komið er fyrir Reykjarnes tekur Trékyllisvík
við og voru galdraslóðir heimsóttar en árið
1654 voru þrír galdramenn brenndir á báli
í klettagjánni Kistu. Kirkjur eru í Árnesi
og lagði Þórður Kakali upp í siglingu
þaðan sem endaði með Flóabardaga 1244,
ekki langt frá. Norðurfjörður er í
beinu framhaldi og þar er Krossneslaug sem liggur við
sjávarmálið en í þetta skipti var
hún óhrein svo ekki varð úr sundferð.
Á svæðinu frá Balafjöllum og norðureftir
er landslag stórbrotið og hrikalegt og hefur haft áhrif
á þá sem þarna lifðu. Lítið
undirlendi nema í Trékyllisvík og á
leiðinni eru nokkur eyðibýli. Strandabændur
stunduðu ekki eins mikið hefðbundinn sauðfjarbúskap.
Bæirnir standa við sjóinn og stutt í fisk,
t.d. þorsk og hrognkelsi, sel og hákarl. Þeir
hafa auk þess haft hlunnindi af reka og æðarvarpi.
Eiginlega má skilgreina þá sem útvegsbændur.
Það er gaman að þræða firðina
og sjá rekaviðinn. Eldri menn segja að minna sé
af reka núna en áður fyrr.
Það er mögnuð saga á þessum spotta
frá Veiðileysu til Norðurfjarðar, sagan er
úti um allt; sjóorusta, galdrabrenna, þjóðsögur,
landnámsmenn og síldarævintýri. Hér
eiga Strandamenn mikil sóknartækifæri í
menningartengdri ferðaþjónustu en sú tegund
ferðaþjónustu er í mikilli sókn.
Firðirnir fyrir norðan Norðurfjörð heita
eftir landnámsmönnum, Ingólfsfjörður,
Ófeigsfjörður og Eyvindarfjörður. Þetta
eru bræður, synir Herröðar hvítaskýs.
Fært er fyrir alla bíla yfir í Ingólfsfjörð
en jeppar í Ófeigsfjörð að Hvalá,
eftir það þarf að taka fram gönguskóna.
Norðar er svo Drangavík og þar eru hin mögnuðu
Drangaskörð sem Drangajökull er kenndur við.
Drangajökull
Veðurspáin fyrir laugardag, okkar D-dag, 14. apríl,
lofaði ekki góðu fyrir jöklaferð á
Drangajökul.
Boðið var uppá él og skýjað var
í Veiðileysu. Það hafði fryst um nóttina
og lofaði það betri færð. Ákveðið
var að leggja í hann og vona að Drangajökull
myndi hreinsa sig síðar um daginn enda veðurspár
ónákvæmar fyrir hálendið. Við
lögðum af stað rúmlega 10 til Djúpavíkur
og ætluðum að tanka þar.
Það er hægt að komast upp á heiðina
á nokkrum stöðum, auðveldast er að fara
upp hjá Veiðileysuhálsi og feta sig inn á
hálendið. Þegar jeppamenn koma niður fara
þeir norðan megin Búrfells (697 m) og niður
Breiðadal. Við ákváðum að fara upp
Breiðadal og fylgja förum sem voru
þar fyrir.
Þegar horft er á þessa leið á Íslandskortinu
í Ráðhúsi Reykjavíkur er hún
mjög brött og ótrúlegt að jeppar komist
þar upp, en þetta er þekkt vélsleðaleið.
Það þarf vel búna jeppa til að klifra
og einnig þarf góða ökumenn. Á leiðinni
var loftþrýstingur í dekkjunum minnkaður,
fyrst í 6 pund og svo í 4, við það
eykst flatarmál dekkjanna, jeppinn flýtur á
snjónum og dekkin ná meira gripi. Þetta er
lykilatriði við að ferðast í snjó
en hugmyndin er komin frá Rússlandi. Allir jeppar
voru búnir GPS-staðsetningartækjum og CB-talstöðvum,
sem voru mikið notaðar til að miðla upplýsingum.
Þegar upp var komið úr Breiðadal yfir Búrfellsbrúnir
í 400 metra hæð blasti við slétt hvít
breiða svo langt sem augað eygði. Rúmir 25
km eru þaðan til Drangajökuls og kallast svæðið
Hraun. Sólin var farin að gægjast í gegnum
skýin og heiðin að hreinsa sig. Þarna er
mjög mikið af vötnum en þau sáust ekki
því þau voru frosin og snjór yfir. Þetta
svæði er paradís leiðsögumannsins því
mjög fá örnefni eru þarna enda áttu
forfeður okkar lítið erindi þangað með
sauðfé. Helstu vötn heita Vatnalautavatn, nyrðra
og syðra, en við forum vestan megin við þau.
Rauðanúpsvatn er austar. Austan Vatnalauta er Hvalá
sem kemur úr nokkrum vötnum á Ófeigsfjarðarheiði
og rennur í gljúfri og djúpum farveg ofan
af hálendinu. Þegar hún sameinast Rjúkanda
verður hún eitt mesta vatnsfall á Vestfjörðum.
Nokkuð hefur verið rætt um að virkja hana. Gömul
þjóðleið, Ófeigsfjarðarheiði,
liggur frá Ófeigsfirði að Hraundal við
Djúp og var nokkuð fjölfarin fyrrum. Heiðin
er grýtt og gróðurlítil og snjór
langt fram á sumrin. Önnur heiði, Trékyllisheiði,
liggur frá Kjós í Reykjarfirði að
Selárdal í Steingrímsfirði. Vörðuð
leið fyrir hesta og gangandi.
Ég, Hornfirðingurinn, sem er alinn upp við rætur
Vatnajökuls, stærsta jökuls Evrópu, átti
von á að Drangajökull myndi gnæfa yfir sléttuna
en hann var hógvær og faldi sig vel í snjónum.
Þegar við komum að rótum hans var ég
í hálfgerðum vafa, en veðurfarið hafði
breyst mikið, það var kominn meiri kuldi, rúmar
6 gráður í mínus, og meiri vindur. Þarna
var skafrenningur og minnti mig á myndskeið frá
íslenskum pólförum á leið á
norður- eða suðurskautið.
Nýjustu tölur frá Hagstofunni mæla Drangajökul
160 ferkílómetra og hæsti punktur er í
925 metrum í Jökulbungu. Fyrir u.þ.b. 10 árum
var jökullinn tæpir 200 ferkílómetrar
svo mikið hefur hann hopað. Nokkrir skriðjöklar
ganga úr honum t.d. í Kaldalón í Djúpinu,
Leirufirði í Jökulfjörðum og nokkra firði
á Ströndum. Í Leirufirði eru ummerki eftir
fyrstu jöklarannsóknir á skriðjöklum
hér á landi eftir Þorvald Thoroddsen 1886-87.
Það er auðvelt að keyra á hvelfdum jöklinum
enda engar sprungur á þessum árstíma.
Þegar komið er á efsta punkt sést niður
í Ísafjarðardjúp, Jökulfirði,
Hornstrandafriðland, einn elsta hluta Íslands, 16 til
17 milljóna ára, yfir Strandir og víðar.
Hægt er að ganga á klettaborgirnar sem rísa
úr jöklinum, Hljóðabungu og Reyðarbungu,
austar er Hrolleifsborg (851 m) en þaðan er útsýni
talið best.
Um Drangajökul voru miklar mannaferðir til forna og allt
fram undir 1920. Meginhluti timburs í gömlum húsum
við Djúp er rekaviður af Ströndum. Viðurinn
var fluttur á hestum um Drangajökul að Djúpi.
Þetta hét að "fara drögur", því
framhluti trjánna var bundinn á klakk, en afturhlutinn
dróst. Nú
draga menn bilaða jeppa af jökli!
Ég var mjög hrifinn af tveim tindum, eða hyrnum,
sem stóðu upp úr sléttunni; Kálfatindar
(646 m) og Nónhnjúkum sem fylgdu okkur alla leið.
Blágrýti er aðalbergtegundin og sundurgrafin
megineldstöð liggur á milli Reykjarfjarðar
og Ófeigsfjarðar, trúlega eru þetta leifar
úr henni.
Ekki var mikil umferð á Drangajökli, en við
mættum einum jeppa með marga dísilbrúsa
aftanáliggjandi. Lögreglan á Ísafirði
var með umferðareftirlit á páskadag, enda
veður mjög gott. Þeir stöðvuðu um
60 bíla á jöklinum og fylgdust sérstaklega
með ölvunarakstri.
Enginn var grunaður um ölvun við akstur og voru langflestir
með beltin spennt. Hins vegar fannst laganna vörðum
vélsleðamenn illa varðir um kollinn. Um helgar
í apríl og maí geta verið á milli
200 og 300 manns á ferð í einu um jökulinn
og nágrenni, flestir vélsleðamenn.
"Allt sem getur bilað, mun bila" er lögmál
sem kennt er við Murphy nokkurn. Lögmálið
rættist í þessari Drangajökulsferð.
Það kemur manni ekki á óvart því
átökin eru gríðarleg á jeppann,
vél- og drifbúnað. Þegar dísil-knúni
Rocky-jeppinn var að feta sig upp jökulinn kom upp vandamál
í hráolíusíu, óhreinindi og
vatn orsökuðu olíustíflu og fraus það
saman í síunni. Líklega hefur olían
á Djúpuvík verið óhrein.
Ýmislegt var reynt til að leysa vandamálið
en ekkert gekk. Því varð að draga bílinn
af jöklinum til byggða. Göslarinn fór á
undan og hegðaði sér einsog indíáni,
merkti för í snjóinn og kannaði hagstæðustu
leiðir. Stimpillinn og Dóri Meik skiptust á
um að draga en Stimpillinn dró þó meira
því ekki treystu menn vatnshosunni á GMC nógu
vel. Hjörtur var á leið í bæinn,
hann átti að mæta í fermingarveislu kl.
18 og ætlaði að renna suður eftir kjálkanum.
Þegar hann var rétt búinn að skilja við
okkur fóru að heyrast drunur úr vélinni,
vélstjórinn var ekki í góðu skapi.
Hann sneri því við og dólaði niður
í Veiðileysu en hávaðinn jókst sífellt.
Vélin hafði einfaldlega brætt úr sér.
Ferðin af jökli gekk vel enda Göslarinn seigur
að merkja heiðina og ef einhver mishæð varð
á vegi okkar var Einbjörn-, Tvíbjörn-aðferðin
notuð. Veðrið var mjög fallegt síðdegis,
mikil sól og gott skyggni. Fjöllin voru glæsileg,
sérstaklega Glissa, Búrfellið, Reykjafjarðarfjall,
Sætrafjall og Kamburinn. Eins fjallgarðurinn austan
Trékyllisheiði með Háafell, Pottfjall, Bygisvíkurfjall,
Kaldbak og Lambatind (854 m) hæstan. Þessi fjöll
eru mjög sérstök í laginu, næstum
ókleif, og sérstaklega gaman að sjá þau
á Íslandskortinu í Ráðhúsi
Reykjavíkur.
Komið var um náttmál í Veiðileysu
og á páskadag héldu tveir bílar af
stað til höfuðborgarinnar. Gemsinn hjá Dóra
dró hinn Gemsann og tók ferðalagið átta
tíma og bensíneyðsla um 30 lítrar á
hundraðið enda var ekki verið að keppa í
sparakstri. Vatnshosan stóð fyrir sínu en vélin
hitnaði vel í nokkrum brekkum. Bilunin í Rocky
var ekki alvarleg, þegar hitinn fór yfir núllið
leystust öll vandamál og hann hrökk í
gang. Því var jeppi í togi frá Drangajökli
til Gravarvogs og er það trúlega met.
Þeir leyna á sér Vestfirðir, sérstaklega
Strandir sem hafa uppá mikið að bjóða
bæði í náttúru og sögu en
fáir hafa notið þess. Ef ferðamenn vilja
púsla því saman sem þeir lærðu
í landafræði og sögu er tilvalið að
fara á þessar slóðir. Margar skemmtilegar
gönguleiðir eru til. En endilega takið Árbók
FÍ 2000 " Í strandabyggðum norðan lands
og vestan" með.
|