SPOTLIGHT:

Reykjafjörður

Ferðast á Vestfirði

Seinagengið
Heimildir

 

 

Veiðileysa

Byggð á norðanverðum Vestfjörðum hefur átt í vök að verjast síðustu áratugi. Veiðileysa fór í eyði 1961 um svipað leyti og vegur kom í fjörðinn. Þegar byggðin stóð í mestum blóma í Árneshreppi á Ströndum voru tvö þorp þar, Djúpavík og Gjögur. Á árum seinni heimsstyrjaldar bjuggu þarna á sjötta hundrað manns, en nú eru skráðir innan við 70.

Veiðileysufjörður er þröngur og stuttur fjörður sem skert upp í landið milli Byrgisvíkurfjalls og Kambs. Fjörðurinn er nokkuð djúpur en grynningar eru fyrir fjarðarmynninu og Byrgisvíkurrif eða Veiðileysurif. Undirlendi er lítið og mest í fjarðamynninu en þar eru Veiðileysubæirnir. Kambur (530 m) er
sérkennilegt fjall og setur mikinn svip á fjörðinn, fjallseggin er þunn og þvernípt með ótal dröngum og hamrasúlum sem minna á tröllagreiðu.
Gerður hefur verið ágætis vefur um Veiðileysuættina, frá Guðbrandi Guðbrandssyni eldri, hreppstjóra og konu hans Kristínu Magnúsdóttur. Afkomendur þeirra hafa haldið bæjunum vel við og nota sem sumarhús. Landbúnaður á Íslandi hefur átt undir högg að sækja og eflaust eiga fleiri býli eftir að verða nýtt svona.
Fyrri (hvíti) bærinn var byggður af einum syni Guðbrandar eldri, Þorláki, og
hinn bærinn var byggður af tveimur sonum Guðbrandar yngri, og það eru
afkomendur þessara tveggja bræðra sem hafa gert húsin upp og síðan haldið þeim við.

Munnmæli telja að nafnið Veiðileysa sé þannig til komið að
kerling nokkur að nafni Kráka hafi misst tvo sonu sína í
fiskiróðri. Mælti hún þá svo um í harmi sínum að þar skyldi
aldrei framar veiðast bein úr sjó. Þótti það þá sannast. Að
því búnu hljóp Kráka upp með á þar við fjarðarbotninn og
steypti sér í foss sem þar er og heitir Krákufoss.

Veiðileysufjörður
Í forgrunni eru íbúðarhúsin sem er vel viðhaldið og notuð sem sumarhús. Kambur í bakgrunni og Burstafell (586 m) með dalverpið Gyltabæli til hægri.

Kambur er sérkennilegt og áberandi fjall á nesinu milli Reykjarfjarðar og
Veiðileysufjarðar. Upp úr Kambinum rísa þverhníptir tindar sem álengdar
minna á tröllagreiðu. Ekki er akvegur fyrir Kamb en á þessari leið er margt
að sjá.

Veiðileysa
Girðingar og hlið í kafi í snjó um miðjan apríl. Í bakgrunni sést Illviðrishnúkur og
Fýldalsfjall. Fýlsdalur er þar á milli.
Sumarbústaður er til vinstri en bæjirnir tveir til hægri.

Bærinn í Veiðileysu stendur á fornum marbakka nokkuð ofan við fjarðarbotninn.
Í Veiðileysu var margbýlt. Pottfjall (498 m) nær ókleyft fjall. Austan í því er Pottur,
hömrum girt hvilft og Burstafell í fjarska..

Sumarhöllin
Hér sést í Sumarhöllina sem Seinagenið gisti í á páskum 2001. Þetta hús fór vel
með 16 sálir. Sex svefnherbergi, stór stofa og stórt eldhús nær. Jeppaflotinn sést á bílastæðinu til vistri. Fýldalsfjall og Kambur trjóna yfir.


Dieselrafstöðin
Græni skúrinn hýsir Dieselrafstöðina sem sér Veiðileysubæjunum fyrir orku.
Einhverjar rústir sjást þarna. Fýlsdalsfjall, Hlöðuskörð og Kamburinn.

Rekaviður
Eitt af hlunnindunum, mikill viðarreki var nýttur til bygginga og smíða. Í seinni
tíð hefur rekinn minnkað. Selveiði og dúntekja voru drjúgt búsílag á mörgum
bæjum. Fiskveiðar voru ríkur þáttur í afkomu flestra bænda, ekki aðeins þorskveiðar
heldur hákarlaveiðar og Hrognkelsaveiðar. Trúlega hafa fangbrögð við reka
styrkt Strandamenn en ímynd mín af Strandamönnum eru sterkir menn.

Afþreying
Á sumrin er hægt að spila körfubolta og róla sér. Allt framleitt úr rekavið.

Heimildir:
http://www.geocities.com/veidileysa/
http://www.akademia.is/vestfirdir/strandir/stgongul13.html
http://www.akademia.is/vestfirdir/strandir/starneshr.html