SPOTLIGHT:

Reykjafjörður

Ferðast á Vestfirði

Seinagengið
Heimildir

 

Reykjafjörður og Norðurfjörður

Veður var ekki hagstætt fyrir hálendisferð á föstudaginn langa, hæglætisveður en skýjað. Því var tilvalið að kíkja á næstu staði fyrir norðan okkur, Reykjarfjörð, Trékyllisvík og Norðurfjörð.

Samgöngur á landi við norðurhluta Strandasýslu eða í Árneshreppi geta verð þungar. T.d. lentu hjónin sem Reka Hótel Djúpuvík í því að taka fimm daga í ferðalagið frá Reykjavík til Djúpuvíkur. Þau lögðu af stað í tveim bílum á miðvikudag og voru komin aðfaranótt mánudags, 9. apríl. Fleira fók bættist í við og 14 manns slógust í hópinn. Flugsamgöngur eru við Gjögur en Flugfélag Ísleifs Ottesen flaug þangað en missti leyfið fyrir nokkru.

Reykjafjörður er mesti fjörður á norðanverðum Ströndum, milli Trékyllisvíkur og Veiðileysu. Hann er röskir 13 km á lengd og 3 km á breidd. Í minni hans er Gjögur en þar hefur útgerð verið í aldir fræg fyrir hákarlaveiðar. Inni í firðinum er Djúpavík og Kúvíkur sem voru um aldir aðalverslunarstaður Strandamanna.

Undirlendi er mest í botni fjarðarins og þar eru m.a. Breiðidalur og Mjóidalur. Nafnamiðlarar hafa haft húmor þegar þeir voru að gefa nöfn eða kannski sýnir þetta best andstæðurnar í landslaginu. Annað sem tengist nafnavali í Strandasýslu er hversu mörg nöfn eru einnig til á öðrum stöðum t.d. Grímsey, Kaldbakur, Reykjanes, Búrfell (1/18), Árnes, Veiðileysufjörður o.s.frv. Síðan koma einstök nöfn einsog Glissa, Sætrafjall og Trékyllisvík. Stóra spurning er sú hvort samgangur hafi verið svo lítill á milli annara landshluta eða Strandamenn svona frumlegir og hinir hermt á eftir.

Reykjafjörður
Þessi mynd er tekin á Búrfellsbrúnum, en við fórum upp Breiðadal sem er í botni
Reykjafjarðar. Þarna má sjá Kamb og hamrana fyrir ofan Djúpuvík. Ekki sést í Háafell
sem gnæfir yfir Djúpuvík.

Á Djúpuvík var fyrst atvinnustarfsemi árið 1917. Þá var reist síldar-söltunarstöð af Elíasi Stefánssyni. Óskar Halldórsson, Íslandsbersi var einnig með starfsemi á þessum tíma. Árið 1920 var Krakkið og lagðist stafsemi niður. Árið 1934 var aftur hafin starfsemi og fyrirtækið Djúpavík hf. hóf að reisa fullkomnustu síldarbræðslu Evrópu. Brætt og saltað var til 1952 en þá var starfsemi lögð niður eftir að síldin hvarf úr Húnaflóa.

Það var mögnuð stund að koma í þetta mannlausa þorp og kíkja 50 ár aftur í tímann. Tóm síldarbræðsla, gamall Evrópumeistari og íbúðarhús tóku á móti manni. Þó var fólk nýkomið í Hótel Djúpuvík en það er rekið yfir sumarið. Það var skrítið að koma inn í bræðsluna, lágt til lofts og gömul ryðguð tæki. Ég vil að bræðslan fái að standa um ókomna framtíð sem minnisvarða um merkilegt tímabil í Íslandssögunni.
Verður þetta framtíðin sem býður nokkurra þorpa á Íslandi í kjölfar alþjóðavæðingar, eyðimerkurstefnu stjórvalda í byggðamálum og kvótasetninga? Munu þorpin verða auð yfir veturinn og húsin sem eftir standa notuð sem sumarhús fyrir eigendur og afkomendur þeirra?

Næst var komið við á fyrrum hákarlaslóðum, Gjögri. Þegar komið er fyrir Reykjarnes tekur Trékyllisvík við og voru galdraslóðir heimsóttar en árið 1654 voru þrír galdramenn brenndir á báli í klettagjánni Kistu. Kirkjur eru í Árnesi og lagði Þórður Kakali upp í siglingu þaðan sem endaði með Flóabardaga 1244, ekki langt frá. Finnbogi rammi bjó á Finnbogastöðum í miðri víkinni. Trékyllir sem víkin á að draga nafn sitt af var að sögn skip sem þarna var smíðað á landnámsöld og á að hafa
verið stutt til endanna og breitt um miðju. Orðið kyllir merkir pungur eða
skjóða. Önnur skýring á nafni víkurinnar er að hún dragi nafn af hinum
mikla rekavið sem þarna berst á land.
Norðurfjörður er í beinu framhaldi og þar er Krossneslaug sem liggur við sjávarmálið en í þetta skipti var hún óhrein svo ekki varð úr sundferð.

Á svæðinu frá Balafjöllum og norðureftir er landslag stórbrotið og hrikalegt og hefur haft áhrif á þá sem þarna lifðu. Lítið undirlendi nema í Trékyllisvík og á leiðinni eru nokkur eyðibýli. Strandabændur stunduðu ekki eins mikið hefðbundinn sauðfjarbúskap. Bæirnir standa við sjóinn og stutt í fisk, t.d. þorsk og hrognkelsi, sel og hákarl. Þeir hafa auk þess haft hlunnindi af reka og æðarvarpi. Eiginlega má skilgreina þá sem útvegsbændur. Nú í maí 2001 er illa komið fyrir erfðarréttinum, kvótalög komin á smábáta og enginn getur veitt lífsbjörgina án þess að veðsetja allt sitt.
Það er gaman að þræða firðina og sjá rekaviðinn. Eldri menn segja að minna sé af reka núna en áður fyrr. Strandamenn hokra að sínu og kljúfa rekavið rekavið þegar illa gefur á sjó. Að kljúfa við er kallað að hleypa á Ströndum. Það krefst innhverfrar íhugunar að hleypa staurum, íhuga hvernig á að reka meitlana inn í viðinn.

Firðirnir fyrir norðan Norðurfjörð heita eftir landnámsmönnum,
Ingólfsfjörður, Ófeigsfjörður og Eyvindarfjörður. Þetta eru bræður,
synir Herröðar hvítaskýs. Fært er fyrir alla bíla yfir í Ingólfsfjörð
en jeppa í Ófeigsfjörð að Hvalá, eftir það þarf að taka fram
gönguskóna. Norðar er svo Drangavík og þar eru hin mögnuðu Drangaskörð sem Drangajökull er kenndur við.
Bjarnarfjörður nyðri er næstur og er talið að Fjalla-Eyvindur hafi flúið norður á Strandir þegar Árnesingar lögðu í auðn hreysi hans undir Arnarfellsjökli 1762. Talið er að Eyvindur og Halla hafi verið tekin á Strandafjöllum 1763 og færð Halldóri sýslumanni Jakobssyni sem þá bjó að Felli í Kollafirði.

Djúpavík
Seinagengið Léttir að tanka við bensínstöð Shell í Djúpavík. Til hægri er Hótel Djúpavík í rauða húsinu, nokkur íbúðarhús og síldarbræðslan, gamall Evrópumeistari..

Síldarbræðslan á Djúpuvík.
Fullkomnasta síldarbræðsla í Evrópu 1934. Árið 1952 var verksmiðjunni lokað. Frekar fannst mér lágt til lofts þarna og skrítin tilfinning að koma inn.


Reykjafjörður
Bærinn Reyjarfjörður í botni Reykjarfjarðar fór í eyði 1997. Í bakgrunni er Stekkjarhöfði og út frá honum gengur Stekkjarnes út í Reykjarfjörð. Við bæinn eru nokkrir fallegir
hólar og sá stærsti er Búhóll. Í honum búa álfar og mátti ekk slá hann. Ef það
var gert átti ábúandinn að verða fyrir skepnumissi.

Reikistefna við Sætrafjall.
Farin var smá rúntur inn Reykjarfjörð. Hér er stoppað við rætur Sætrafjalls (561 m) og sér inn Naustvíkurskörð. Sætrafjall er ókleyft hamraþil þvert yfir í Trékyllisvík.

Nafnið kemur útaf Sætrakleyf sem gengur út í Reykjafjörð en sætrur eru grasbekkir sem hallar niður að sjó. Þar var ágætis slægju og beitarland.

Örkin tekur við af Sætrafjalli úr Reykjarfjörð og er (634 m) en Finnbogastaðafjall Trékyllis-meginn



Snjóskafl
Þótt ekki hafi verið mikill snjór í vetur á Vestfjörðum þá getur safnast saman í góða skafla. Þessi mynd er teki undir Reykjarfjarðarfjalli og Kambur sést í fjaska hinum meginn fjarðar.

Snjóflóð
Gunni Stimpill að reyna að koma af stað sjóflóði í Reykjafjarðarfjalli. Lítil flóð hafa fallið úr klettunum.

Heimildir:
http://www.vst.is/frettir/Gangverk002.pdf
Árbók Ferðafélags Íslands 2000, Í standabyggðum norðan lands og vestan.
Morgunblaðið miðvikudagur 11. apríl 2001.